laugardagur, mars 13, 2004

MTV Funk, stelpudjamm og stuð

Fór í fyrsta MTV Funk danstímann í gær. Sporin voru viðráðanleg, þar sem þetta var byrjendatími. Mjög gaman, flest lögin með Missy Elliott, sem ég get nú alveg dillað rassinum við, og þegar Nelly vælukjói var spilaður reyndi ég að láta það ekkert fara í taugarnar á mér. Nokkrir strákar voru með og einn tók góða breiksyrpu eftir tímann, reyndi að snúa sér á hausnum og hvaðeina. Ekki leiðinlegt að fylgjast með því.

Upp úr níu var ég svo komin í stelpudjamm til Dorte sem Krissa hafði boðið mér í. Þar voru auk þeirra tveggja Dísa, Solveig hin norska og krúttið hún Trine. Við komum nokkrar með efni í drykki, Krissa hafði keypt Pitú í Þýskalandi og blandaði því Capirinha, þann besta sem ég hef smakkað hingað til, handa Dísu sinni. Dísa var með sumarlega útgáfu af jarðaberjadaquiri og ég var með sull í pina colada, sem varð nú frekar ógeðis. Dósakókósmjólk er ekki góð, best að mjólka bara alvöru kókoshnetur.

Kvöldið byrjaði rólega en endaði svo í miklu dansstuði í eldhúsinu, stoppdans, stóladans, samkvæmisdans og svo villtur og óskipulagður dans. Held við höfum verið allavega fjóra klukkutíma að dansa þarna í eldhúsinu, með smáhléum. Smiths, Stero Total, Modest Mouse, Breeders, Mew, Pixies, Elvis og fleiri héldu okkur í stuði og svo chilluðum við með Frank Sinatra. Alveg stórskemmtilegt, mikill sviti. Varð svo þreytt upp úr fjögur og var komin heim klukkan fimm.

Gott að djamma, nú langar mig bara að dansa meira, er að hlusta á Franz Ferdinand diskinn sem ég var að kaupa mér áðan, lagar mest að standa upp hérna inni í tölvuverinu og taka sporið. Aúúú! Frábær diskur. Fór í dag í Badstue Rock og þrælaði starfsmönnunum þar út við að skipta um diska í spilaranum fyrir mig. Jet, Dizzee Rascal og fleiri fengu ekki náð fyrir eyrum mínum og pyngju. Eini diskurinn sem ég vildi kaupa var Franz. Hlustaði líka á nýja Einstürzende Neubauten diskinn, frekar rólegur og ekkert brjál. Ætla samt á tónleikana með þeim, kannski taka þeir eitthvað gamalt og gott.

Að enn öðrum málum, er komin í skemmtinefnd í bekknum mínum, sem loksins virðist vera að komast í stuð eftir endalaust fálæti í allan vetur. Er að leita að sal handa okkur til að eta og drekka eina kvöldstund.