Síðustu helgi héldu þrír prófessorana hérna göngupartý svokallað. Þau búa öll í sama hverfinu og var kvöldið skipulagt þannig að forréttur var boðinn fram í einu húsinu, aðalréttur í næsta og eftirréttir í því síðasta. Okkur hinum var úthlutað hús til að koma með drykki.
Veðrið var mjög gott og hægt að standa úti án þess að vökna eða krókna allt kvöldið.
Eftirréttahlaðborðið var einstaklega glæsilegt, en þar hafði leiðbeinandinn minn farið mikinn í elhúsinu með fjölskyldunni sinni og hef ég aldrei séð eins mikið af eftirréttum, nema þá á jólahlaðborðinu í Perlunni! Garðurinn var skreyttur kertum og þetta var allt mjög huggulegt.
Ég var í miklu partýstuði og langaði að djamma undir morgun, en eftir stutta ferð á pöbb í hverfinu gáfust flestir upp, enda sumir búnir að drekka frá því í forréttinum um fimm-leytið. Ég hafði hins vegar sparað drykkjuna og var enn í stuði. Íslensku djammstuði, sem átti engan veginn heima hér í borg þar sem flest lokar klukkan eitt, ef ekki tvö um helgar. Skrapp samt aðeins í miðbæinn, sem er alltaf eins og dýragarður um helgar, og fékk mér lítinn bjór á þakbar með einum pólska stráknum og hressu spænsku kærustupari. Ekki var meira um djamm það kvöldið og var ég komin heim með strætó klukkan tvö.