þriðjudagur, desember 04, 2007

Ekki leiðinlegt

Dreif mig á tónleika með Foals og New Young Pony Club í Nottingham Trent Uni (hinn háskólinn hér í bæ) á föstudagskvöldið. Þvögudans við sviðið, dansaði meira en ég hef gert síðan ég flutti hingað og skemmti mér stórvel í mínum eigin frábæra félagsskap. Foals voru mjög hressir og NYPC keyrðu upp partýstuðið, tóku meira að segja "Pump up the Jam"! NYPC eru búin að gleðja mig í vinnunni síðan í sumar og ekki var nú leiðinlegra að sjá þau á tónleikum.

Skrapp til Cambridge síðustu helgi, í átta tíma ítalskan hádegisverð hjá Jengu og Massa. Hefði þurft að vera með alla vega tvo maga fyrir allar kræsingarnar. Alveg hreint ómetanlegt að hitta þau og spjalla, gaman að þau séu nú bara í tveggja tíma fjarlægð. Leigði bíl og ferðin gekk vel. Cambridge er mjög sætur og krúttaralegur bær. Svolítið eins og þorp, með lágreistum gömlum húsum.

Hef líka verið dugleg að fara ein í bíó. Fór að sjá Darjeeling Limited, elska Wes Anderson myndir. Þessi var engu síðri en fyrri myndir hans. Líka búin að sjá Stardust, frábæra ævintýramynd, og Death Proof, eftir QT-kallinn. Var nýbúin að sjá Clockwork Orange aftur þegar ég sá Death Proof. Ultraviolence fær algjörlega nýja merkingu í þessum óði til 70's B mynda, þar sem margslungnar, fagrar konur með berar tær, sísmyrjandi sig varasalva, leika aðalhlutverk á móti krumpuðum Kurt Rusell.

Á morgun er ég að fara að sjá Hnotubrjótinn í uppfærslu Sankti Pétursborgarballetsins, svo er jólaball Norræna félagsins, svo eitthvað að tsjilla með grísku konunni, svo í óvissuferð til Suður-Englands og svo til Árósa í eina helgi! Og vinna þess á milli. Tilraunir í dag, tilraunir á morgun...