Lenti á Íslandi klukkan fjögur aðfaranótt laugardags eftir tæplega fimm tíma seinkun á flugi vegna verkfalls flugumferðarstjóra. Sem betur fer var pabbi búinn að láta mig vita af seinkuninni, svo ég tók lest seinna og rölti aðeins um Manchester áður en ég fór út á flugvöll. Götulífið í Manchester var öllu fjölbreyttara en í Nottingham. Mætti hópi af skinheads og nokkrum sekúndum síðar gullfallegum dragdrottningum.
Veðrið á Íslandi var fallegt, en nokkuð svalt á laugardeginum, sem fór í snúninga og heimsóknir um höfuðborgarsvæðið. Fékk grillaðan hval að hætti Þráins í kvöldmat og dreif mig svo á tónleika. Náði nokkrum síðustu lögunum með Sigurrós, sem voru frábærir. Rakst á litlu systur mína og fór í göngutúr út að sundlaug í hléinu áður en Björk byrjaði.
Björk var alveg frábær, stóð sig eins og hetja þótt hún væri með hálsbólgu og grínaðist með að hún hljómaði eins og Johnny Cash. Það er nú kannski heldur ekki sniðugt að striplast berfætt um á sviðinu, hún ætti kannski að fá sér ullarsokka í stíl við marglita búninginn sem hún var í...
Í dag liggur leiðin á Arnarstapa, mun skemmta mér á Snæfellsnesi með fjölskyldunni þangað til á þriðjudag. Kannski maður skelli sér á jökulinn? Það er kominn tími á tíu ára júbilæumsferð upp Snæfellsjökul.