mánudagur, júní 23, 2008

Útilega í Wales

Skrapp til Wales með nokkrum krökkum úr vinnunni um helgina.
Gistum á tjaldsvæði nálægt Machynlleth, höfuðborg Walesbúa
um 1400. Nú er sá bær aðeins nokkrar krúttlegar götur, með
sauðfé alveg upp við bæinn.

Veðrið var gott á föstudagskvöldið og við kveiktum eld og grilluðum
hamborgara og pulsur. Dansk-enski strákurinn var ekki eins
áhugaverður og í fyrra, en kvöldið var notalegt og næturhimininn fallegur.

Um nóttina kom hellirigning, sem hélst langt fram á morgunn. Við héldum
inn í bæinn og fengum okkur morgunte. Ég varð eftir og restin
af hópnum fór upp Cadair Idris. Tók myndir og spjallaði við bæjarbúa, sem
allir voru mjög almennilegir. Í túrista- og útivistarbúð fræddi afgreiðslumaðurinn
mig um sögu bæjarins. Þarna var þingstaður í ríki síðasta innfædda prinsins af Wales,
Owain Glwyndr, um 1390 og voru mörg húsin við aðalgötuna frá þeim tíma, hlaðin úr flögubergi.

Fékk mér gulróta og appelsínusúpu í hádegisverð á stað þar sem tvær ungar afgreiðslustúlkur
ræddu saman á velsku. Á þessu svæði tala margir velsku dags daglega og það var gaman að heyra.
Eftir búðarráp og spjall við heimamenn og aðkomufólk tók ég strætó á tjaldsvæðið og við
fórum öll á næsta pöbb að horfa á Rússland-Holland í Evrópumeistarkeppninni. Ég hélt með Rússlandi og hoppaði upp og niður af spenningi fyrir framan litla sjónvarpið á pöbbinum, þar sem við fengum okkur einnig kvöldmat. Ég fékk mjög ferskt og meyrt kardimommulamb og "Reverend James" öl. Fórum snemma til baka og beint í háttinn, enda blautt og hráslagalegt úti.

Vaknaði eldsnemma á sunnudagsmorgninum, velskur morgunmatur á sama stað og daginn áður. Við keyrðum þrjú til baka eftir það og hinir fóru niður að strönd. Hefði alveg verið til í að stoppa lengur, en bílstjórinn var þurfti að undirbúa vikuna fram undan og ég hef svo sem nóg að gera líka. Er enn að skrifa fyrsta árs skýrslu og á föstudaginn fer ég til Íslands! Verð á Klakanum 27. júní til 7. júlí. Fer á tónleika, sumarbústað á Snæfellsnesi og í brúðkaup. Hlakka þvílikt til. Var með heimþrá til Íslands í síðustu viku.