mánudagur, febrúar 14, 2005

Fyrsta kvöldmáltíðin, nammidagur, sunnudagur og Valentinusardagur

Náði í hjólhestinn minn úr viðgerð á föstudaginn. Eftir að hafa pantað nokkrar bækur á bókasafninu brunaði ég niður brekkuna alla leið niður á höfn og svo meðfram sjónum, út í skóg, þar sem ég bý. Alveg einstaklega flöt og þægileg leið. Það eru þó nokkrar ýkjur að segja að ég búi úti í skógi, en hverfið heitir Risskov (Hrísskógur) og sá skógur er einmitt á leiðinni heim. Var voðalega þreytt um kvöldið, aðallega þreytt á að hafa kassa út um allt, svo ég aflýsti fyrirhugaðri bæjarferð og dundaði við að pakka upp úr kössunum í eldhúsinu. Fyrsta kvöldmáltíðin var elduð, soðin egg með túnfiski og selleríi.

Skrapp niður í skóla að leita að þvottavél og ísskáp á netinu og endaði með að verða næstum því veðurteppt í bænum. Snjónum hafði byrjað að kynngja niður um morguninn og ég er fegin að ég komst heim því svo hættu strætóarnir að ganga. Fór í göngutúr um kvöldið, fann sjoppuna, leigði Hellboy á okurvídeóleigu bensínstöðvarinnar og hélt áfram að pakka upp úr kössum. Tók nammidaginn hátíðlega og át eiginlega ekkert nema nammi allan daginn.

Þreif innbyggðu skápana á sunnudaginn og ... tók upp úr kössum. Enn ekki búin að koma öllu dótinu fyrir, enda vantar hillur í eldhúsið og eina bókahillu í viðbót í stofuna. Fór í göngutúr um kvöldið, fáir á ferli nema hundaeigendur í laumulegum erindagjörðum.

Á leiðinni á skrifstofuna keyrði ég fram hjá brekku þar sem fullt af börnum voru að renna sér á sleða. Mig langar einmitt í sleða og að fara út að renna mér. Hungraði í kebab og kom við á persneska grillinu þar sem háffranskur og hálflíbanskur vinalegur maður afgreiddi mig. Spurði hvaðan ég væri, því ég kynni greinilega að klæða mig eftir veðri. Enda var ég í hálferðum jólasveinabúningi, rauðum buxum, gönguskóm, með rauða húfu og trefil sem mamma prjónaði.

Ást til ykkar allra á Valentínusardaginn!

Engin ummæli: