Síðasta vika var soldið svakaleg. Flutti á mánudagskvöldið með góðri hjálp Krissu, Dísu, Kaspers, Marie, Ole og Össa. Krissa og Dísa voru mestu massarnir, ekki spurning. Allt dótið var komið á nýja staðinn klukkan tíu um kvöldið. Þá var bara að skutla öllum heim á 20 kúbikmetra flutingabílnum og fara á gamla staðinn að þrífa og endurraða húsgögnunum. Með smá hvíld í sófanum var ég langt fram á nótt að því og fór svo fimm ferðir niður tröppurnar með það sem mér hafði fundist vera eitthvað smáræði. Keyrði aftur á nýja staðinn, fór inn með dótið og hengdi upp þvottinn og þá var kominn tími til að skila flutningabílnum. Eftir að ég var búin að því fór ég aftur í gömlu íbúðina, strauk yfir gólfin og fór út með endurvinnsludraslið og hrúgu af bókum á bókasafnið og upp á skrifstofu. Úti í skóla keypti ég miða heim til Íslands og ætlaði svo heim að skipta um föt og fara upp á skrifstofu að vinna í verkefninu. Í dagsbirtu var nýja íbúðin ekki vel þrifin og ég fann ekki sturtudótið mitt, svo ég fór að þrífa og grafa mig í gegnum kassana. Um kvöldmatarleytið var tannburstinn fundinn.
Daginn eftir lagði ég af stað til Íslands, Sigurbjörg stjúpamma mín hafði dáið á laugardagskvöldið úr hjartaáfalli, 98 ára að aldri. Var soldið sein og lestinni seinkaði líka, svo að ég missti af flugvélinni. Hefði komist í hana ef ég hefði verið með minni tösku, mín var of stór til að mega fara í handfarangri. Sem sagt, soldið vesen og ég var með áhyggjur af því að ég kæmist ekki í kistulagninguna á fimmtudeginum. Það reddaðist samt og ég var komin í kistulagninguna rétt kortéri áður en hún átti að byrja. Frekar erfitt og sorglegt. Presturinn var gamall nemandi Sigurbjargar og hann lýsti henni af mikilli væntumþykju. Hann hafði komið frá Austfjörðum, þar sem hann er prestur. Jarðarförin var því strax daginn eftir kistulagninuna. Athöfnin var líka mjög falleg og minningarorðin fengu tárin til að streyma. Í kirkjugarðinum bar ég kistuna að gröfinni með pabba, Bjarna stjúpbróður, tveim frænkum og stráknum sem Sigurbjörg passaði eftir að hún hætti að kenna.
Næsta aðfangadagskvöld verður án efa tómlegt án Sigurbjargar. Þetta var annars rólegur tími og gott að eyða honum með fjölskyldunni.
Kom aftur hingað aðfaranótt mánudags og mætti á skrifstofuna á mánudaginn. Heima er enn allt í kössum og ég hef smám saman verið að koma mér fyrir. Horfði á kosningasjónvarp á þriðjudagskvöldið á meðan ég dundaði mér við það. Var líka voðalega þreytt í gær og horfði bara á sjónvarpið og talaði í símann uppi í rúminu mínu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli