Aldrei þessu vant tókst mér að vera óvenju tímanlega að gera eitthvað. Sótti enn á ný um í læknisfræði hér í Danmörku. Setti umsóknir til Kaupmannahafnar og Odense með póstinum í gærkvöldi og klukkan kortér yfir ellfu í morgun var ég tilbúin með vel yfirfarna umsókn til Árósa. Þá voru alveg þrjú kortér þangað til átti að skila umsókninni. Ég gat spjallað í rólegheitunum við skrifstofufélagana og þurfti ekkert að stressa mig. Rölti svo fimm mínútna leið til að skila umsókninni. Alveg frábært.
Ég ætla líka að leita að doktorsnámi einhvers staðar þegar ég er búin að skila ritgerðinni minni. Veit um einn stað í Englandi sem mig langar á og svo gæti ég alveg hugsað mér að fara til Þýskalands eða Finnlands. Hér á stofnuninni finnst mér skortur á vísindalegum hugsanagangi hjá sumum ansi hvimleiður og gæti alveg hugsað mér að skipta um stað. Enda er mér ekki til setunnar boðið, allaveg enn sem komið er. Það eru því ýmsir möguleikar í stöðunni.
Nú ætla ég hins vegar að drífa mig að búa til eitt stykki fyrirlestur um æða- og holakerfi heilans (vascular and ventricular systems) fyrir innanbúðar taugalíffræðinámskeiðið. Sem er klukkan tíu í fyrramálið á morgun. Er ekkert búin að vinna í ritgerðinni minni þessa viku vegna umsóknanna. Stefni á að koma sterk inn á morgun eftir hádegi og rúst'essu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli