Heimsókn Eysó og Rakelar Evu var einstaklega ánægjuleg. Skemmtilegast var að syngja Guttavísur á röltinu og "flengja ræfilinn" á viðeigandi stað við mikil hlátrasköll. Fórum á ströndina, þar sem við Rakel Eva óðum aðeins út í sjó.
Núna er ég hins vegar stödd í Kaupmannahöfn og afmælisbarn dagsins er Dóribró! Hann er væntanlega kominn á hótelið sitt í Austurríki, þar sem hann er að fara á námskeið. Á leiðinni þangað kom hann við í Kaupmannahöfn með Írisi og börnunum og þau eru búin að vera hér í nokkra daga. Tók rútu hingað á fimmtudaginn að hitta þau og Signe, sem flutti hingað fyrir nokkrum mánuðum.
Þetta er búin að vera soldið fyndin ferð, búin að rekast á fullt af fólki úti á götu og annars stadar. Fyrsta kvöldið heyrði ég einhverja konu tala íslensku við litla stelpu sem var að hlaupa eftir gangstétt hinum megin við Vesterbrogade. Ég leit yfir götuna og sá að þetta voru Íris og Þuríður Erna! Og fyrir aftan þær Dóri og Hrafnkell. Hóaði í þau og eftir mikla fagnaðarfundi gengum við hundrað húsnúmer á kaffihúsið þar sem við höfðum mælt okkur mót.
Seinna um kvöldið rákumst við á gamlan kunningja úr Kópó, sem sat á hjóli, stopp á rauðu ljósi. Hann var einmitt á leiðinn að hitta annan félaga úr Kópó, sem var nýlentur til að spila í Kristjaníu kvöldið eftir með hljómsveitinni sinni. Við fórum auðvitað þangað og hittum enn fleiri gamla kunningja, ófáa af þeim úr Kópavogi. Mjög fyndið og gaman að þessu. Restin af kvöldinu var rokk, örstutt systkinatjútt (gaman að dansa kjánalega saman) og skondið bull...
Fyrr um daginn fór ég með Signe, sem er soldil mermaid, að skoða litlu hafmeyjuna.
Litla hafmeyjan var stærri en ég hélt hún væri. Það voru samt engin vonbrigði.
Dásamlegt smørrebrød hjá helmingi tengdaforeldra Dóra á Nørrebro í gær og svo Tívolí, Tívolí-í-hí. Afmælisveisla í Lagkagehuset í morgun. Truflað bakarí, í blokk við Christianshavn sem er eins og gul og hvít terta á mörgum hæðum! Dóri kvaddur og tsjillad með Írisi í smá stund og svo til Signe. Átti ágætan sunnudag með henni á gangi um garða Kaupmannahafnar og setu á litlum kúlt bar, þar sem klassísk tónlist og þungt loftið fullkomnaði sunnudagsstemmninguna. Fórum svo á Jean d'Arcs lidelse og død á Cinematekinu. Menning, spænding...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli