föstudagur, september 14, 2007

Vinir á flatskjá

Ráðstefnan í síðustu viku var hressandi.Var sótt heim eldsnemma á fimmtudaginn. Keyrðum til Birmingham, leist vel á háskólasvæðið, fallegir garðar og byggingar. Skrapp í seinna kaffinu að skoða hið fallega Barber listasafn. Kvöldmaturinn var í stórglæsilegu ráðhúsi Birmingham. Sessunautur minn, indæl egypsk stelpa, brytjaði kjúklinginn ofan í mig og mér leið soldið eins og litlu barni. Eftir matinn fórum við í djammhverfið, Broad Street, settumst út, við síki, sem var næstum eins notalegt og við ána í Árósum. Smakkaði redrum, drykk úr rommi, trönuberjasafa, limesafa og engiferbjór.

Gisti á skemmtilegu hóteli með pínulitlum herbergjum og risa flatskjá í stað glugga. Eyddi næsta morgni að hvíla fótinn og horfa á tónlistarmyndbönd. "Vinir mínir", Peter, Björn og John og landi þeirra, José, glöddu augu, hjarta og fótlegg.