Á föstudaginn ákvað ég að hætta að láta mér leiðast. Fólkið á skrifstofunni var að fara á sama stað og venjulega að horfa á ruðning og ég nennti alls ekki að fara. Komin með leið á að fara ævinlega á sömu krá. Gerði það sem mér finnst skemmtilegt, keypti miða á José í okt og Gogol Bordello í des og hinkraði (hérna) eftir að tónleikarnir með Architecture in Helsinki byrjuðu. Sexmenningarnir áströlsku voru með eindæmum hressir, geislandi sólskinsbörn, þótt þau hafi stundum týnt sér í franskbrauðsfönki og 80's vellutónlist. Ætla á fleiri tónleika þarna á næstunni.
Skrapp í bæinn á laugardaginn, Yo sushi! var að opna útibú og ég fékk mér nokkra bita af færibandinu. Grænmetis futomaki-ið var einstaklega ljúffengt.
Nokkrir krakkar úr vinnunni voru búin að skipuleggja gönguferð um Attenborough náttúruverndarsvæðið, sem er alveg við bæinn. Langaði með, en treysti mér ekki í tveggja tíma göngutúr. Hitti þau í staðinn í hádegismat, þar sem árnar Trent og Soar mætast. Tók helmingi lengur en vanalega að komast þangað, því aðal umferðargötur bæjarins voru lokaðar vegna hins árlega maraþons Hróa Hattar. Fegin að ég dreif mig, því þetta var mjög fallegur staður, maturinn, bjórinn og félagsskapurinn (að mestu) góður. Eftir matinn gengu þau til baka og ég rölti til bæjarins meðfram síkinu, tíndi brómber, horfði á kusur, endur, hunda, dorgveiðimenn og fljótabáta af ýmsum gerðum, sem hétu nöfnum eins og Plan B, Free Spirit og Pipe Dream.