fimmtudagur, apríl 15, 2004

Eins og kaffi í gegnum eyrun

Var alveg ógeðslega þreytt í tíma áðan og hálfsvaf á milli þess sem ég glósaði. Kom svo hingað í tölvuverið og skellti á tónlist sem snarvakti mig. The Curse of Singapore Sling, á við góðan kaffibolla. Hélt fyrirlesturinn minn í morgun og er ánægð að vera búin. Vaknaði klukkan fimm í morgun alveg hrikalega stressuð. Held ég hafi barasta lært eitthvað á að gera þennan fyrirlestur, hmmm. Þarf aðeins að melta hvað það er, nákvæmlega.

Ferðin til Íslands um páskana var stutt, bara fjórir heilir dagar. Dóri og Íris giftu sig óvænt á laugardeginum, en þá voru þau búin að hóa í sjötíu manns í eins árs afmæli Þuríðar Ernu og innflutningspartý. Ég var svo heppin að fá að vera vottur, þannig að ég frétti af þessu kvöldið áður. Upp úr hádegi keyrðum við af stað á Þingvelli og Kristín, vinkona Írisar, fékk það hlutverk að brytja lifrarpylsu og blóðmör ofan í Þuríði Ernu í aftursætinu.

Við túristasjoppuna á Þingvöllum tók sýslumaðurinn Ólafur Helgi Kjartansson á móti hinum verðandi brúðhjónum og pappírar voru undirskrifaðir inni í bíl á meðan rigningunni dembdi niður fyrir utan. Leiðin lá svo í Hvannagjá, þar sem vígslan fór fram. Mjög fallegt. Á leiðinni heim var svo skálaði í pilsner. Var þetta hin afslappaðasta hjónavígsla og ekkert stress á þeim Dóra og Írisi.

Náði ekki að hitta marga heima í páskafríinu, enda stuttur tími. Allt stefnir þó í að ég fari til Íslands að vinna í sumar, þegar ég er búin að fara til Þýskalands í brúðkaup og á Hróarskeldu, aúúú!