laugardagur, apríl 01, 2006

Læri, læri, lambalæri!

Síðustu vikur hafa einkennst af langhlaupi að útskrift. Stefni á að skila ritgerðinni mjög fljótlega.

Inn á milli hefur verið hressandi að hitta fólk. Dísa bauð okkur Helgu Báru í íslenskt lambalæri eitt kvöldið. Með chili, negulnöglum og timian. Mmmmm. Sérdeilis gott!

Á mánudaginn var búið að skipuleggja óvænta uppákomu í tilefni af afmæli Marie. Við Dea og Stine hittumst á Marco Polo og biðum eftir að Ole gabbaði Marie þangað inn. Hún varð auðvitað yfir sig hissa að sjá okkur þarna og ekki fannst henni leiðinlegt að við buðum henni í mat og í bíó í Øst for Paradis á eftir. Myndin sem við sáum heitir En Soap og eftir myndina kom Thomas Dybdahl og spilaði nokkur lög á kassagítar. Marie er einmitt mikill aðdáandi þessa norska söngvara og lagasmiðs og henni hefur tekist að smita Deu og Stine af því. Ég hafði aldrei séð hann áður á tónleikum og verð að segja að maðurinn syngur alveg ótrúlega vel. Mér finnst hann spila voðalega notalega tónlist. Samt ekkert sem ég froðufelli yfir. Hins vegar var alveg einstakt að sitja þarna í litlum bíósalnum og stemmningin var mjög góð. Á milli laga var tími til spurninga og þetta var allt í allt hin ágætasta skemmtun.

Bíómyndin var líka nokkuð áhugaverð. Hún vann silfurbjörn í Berlín fyrir besta byrjendaverk um daginn. Fjallar hún um konu sem flytur frá kærastanum sínum inn í íbúð fyrir ofan kynskipting. Ég sá viðtal við leikstjórann í Clement Direkte í gær. Hún sagði að myndin væri sprottin upp úr því að hún hefði sjálf hitt kynskipting og staðið sjálfa sig að því að vita ekki hvernig hún ætti að tala við þessa manneskju sem hún gæti ekki alveg gert upp við sig hvort væri karl eða kona. "Hvers vegna?" spurði Clement og leikstjórinn svaraði "Jú, af því að við notum kynið svo mikið í samskiptum og erum mismunandi við konur og karla." "Er það?" hváði Clement og hallaði sér stóreygur í átt að leikstjóranum. "Já," svaraði hún "þú hallar þér til dæmis að mér með blikkandi þínum stóru augum og með þetta STÓRA bindi!" Þá sprakk ég úr hlátri. Nokkuð til í þessu. Þetta fannst mér vera enn eitt dæmi um danskan hugsunarhátt þar sem kyn er oft mikilvægara en manneskjan sjálf. Kannski er þetta vegna þjóðlægrar greddu dansksins? Kíkið endilega á heimasíðu Clements og sjáið sjálf.



Kvöldið eftir var okkur svo boðið í mat heim til Marie og Ole og var það einstaklega hugglegt. Ég viðraði þá hugmynd að sækja um nám í Englandi og stelpurnar sögðu "Frábært, þá komum við í heimsókn!"

Nú verð ég hins vegar að vera dugleg að skrifa. Var orðin voðalega þreytt í gær og fór heim um sjöleytið. Horfði á Musikbyrån á SVT2 og Musikprogrammet á DR2. Sænski tónlistarþátturinn fjallaði um blómlegt tónlistarlíf Melbourne og sá danski sýndi heimildarmynd um Flaming Lips, The Fearless Freaks. Góð heimildarmynd um fólk sem býr til tónlist frekar en tónlistina sjálfa.

Engin ummæli: