Í dag var rúmlega tuttugu vasaklúta dagur á skrifstofunni. Bæði er ég kvefuð og orðin hás og vondur leiðbeinandi olli mér miklu hugarangri með leiðinlegum tölvupósti. Það gerðist eftir að ég gerði honum ljóst að ég væri óánægð með að hann svaraði ekki þeim spurningum sem maður sendi honum í tölvupósti og léti sem hann sæi ekki ef maður sendi honum kafla til yfirferðar sömu leið. Ég hef lengi verið óánægð með þennan leiðbeinanda og finnst hann oft hafa verið verri en enginn. Því miður hef ég ekki haft það í mér að segja það fyrr en nú. Krissa massi hjálpaði mér að vera "dipló" og svara þessu bréfi án þess að vera of leiðinleg á móti. Enda hefur hún reynslu í bransanum. Ég er ennþá soldill kjúklingur og er búin að sitja og væla hér á skrifstofunni í gær og í dag. Heppin að það hefur enginn verið hérna. Verður mér minnisstætt viðtal við fjallgöngukappa einn, sem sagðist hafa "grenjað sig síðustu 100 metrana á toppinn". Seint mun ég klára ritgerðina með þeirri aðferð.
Vondi leiðbeinandinn svaraði svo bréfinu og er hættur að vera vondur í bili. Ég stóð upp og fann upptök myglulyktarinnar sem hefur svifið fyrir vitum mínum af og til síðustu daga. Reyndist það vera innkaupapoki með grænu rúgbrauði skólafélaga míns. Henti því hið snarasta og fór út að kaupa mér fleiri vaskaklúta og sítrónusorbet. Og hindberjasorbet. Trøstespisning.
Strætó aftur farinn að ganga eftir rúmlega fjögurra daga verkfall.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli