Hitinn er sem betur fer aðeins að lækka hérna í Árhúsinu og í gærdag var hitinn í íbúðini kominn niður í þægilegar 25 gráður. Þá gat ég loks hafið tiltekt. Í hitunum hef ég oftar en ekki þeyst á baki hjólhestsins til að kæla mig. Á fimmtudaginn fór ég einmitt í slíkan hjólatúr. Þar sá ég meðal annars jóska Porsche umboðið, BMW og Mini umboðin, akra og sveit. Náði endimörkum Árósa og hélt eftir það niður að ströndinni í Egå, þar sem ég hjólaði fram hjá fullri ljósku á leiðinni heim af barnum. Hún gekk eitthvað undarlega og ég spurði hvort ekki væri í lagi með hana. Jú, jú, hún var aalveg að vera komin heim til sín. Niðri við höfnina voru börn að róla sér og hamast á leikvellinum og á bak við þau gaf að líta skóg skipsmastra. Hjólaði fram hjá smábátunum og til Árkróksins, þar sem stór fjölskylda var að ljúka degi við ströndina með logandi grilli. Lítil stelpa rogaðist með vatnspípu og konur í svörtum skikkjum pökkuðu dóti saman. Hjá þeim stóð lítill strakur og hélt í lítinn gúmmíbát. Áfram þaut ég á hjólinu meðfram veginum, fram hjá húsi sem var eins og tekið út úr Mjallhvíti og dvergunum sjö, fyrir utan breiðtjaldssjónvarpið sem sýndi fótbolta og bjórflöskurnar við vaskinn. Hafði gleymt boltanum.
Það gerði ég hins vegar ekki um helgina, sá báða leikina. Hélt með Ítalíu í úrslitunum. Hoppaði af gleði þegar þeir unnu. Áfram Ítalía! Þeir fögnuðu líka mjög skemmtilega. Ég er fegin að þeir unnu, en ekki frönsku fýlupúkarnir.