þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Enn sit ég í Árósum og hef það einkar gott. Hef kannað ströndina rétt hjá húsinu mínu nokkrum sinnum og er búin að finna minn uppáhaldsstað í tæplega tíu mínútna göngufæri. Þótt ég hafi búið svona nálægt ströndinni í eitt og hálft ár hef ég samt lítið nýtt mér hana. Nú hef ég hins vegar nægan tíma til þess.

Eitthvað myndast ég líka við að sækja um doktorsnám, en það gengur frekar hægt. Ég er ekkert voðalega æst í að flytja til Englands, þar sem ég var búin að finna nám til að sækja um. Þar er verkefni sem er í beinu framhaldi af meistaraverkefninu mínu, mjög spennandi. Ég er samt frekar leið yfir því að hafa ekki fengið undanþágu frá hinni dönsku kandídatreglu, sem segir að maður komist ekki inn í nám þar sem aðsókn er mikil ef maður er búinn með annað nám fyrir. Ef ég hefði semsagt hætt í meistaranáminu í vor í stað þess að klára væri ég nú að byrja í læknisfræði hér í Danmörku. Afarkostir þessir fannst mér óásættanlegir og ég er mjög fegin að ég lauk meistaranáminu. Nú tek ég því rólega á atvinnuleysisbótum hér í Danaveldi og íhuga næstu skref. Langar að læra meira og helst búa á meginlandi Evrópu.