þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Ekkert sérstaklega um erbíum íbætingu

Spurning dagsins í örsmæðarvísindum (nanoscience) var: Förster, Dexter, eða Förster-Dexter? Af hverju? Jú, af því að það hljómar svo skemmtilega. Einhver doktorsnemi kom að kenna okkur í dag og hann hafði þann hvimleiða sið að spurja salinn í sífellu. Oftast gekk það svona fyrir sig: PhDstud: Spurning. Salur: Löng þögn. PhDstud: Ókeiii. Ég svaraði einu sinni og þótt svarið væri rétt ákvað ég að svara ekki aftur, því að gaurinn hóf það sem virtist vera eilífðarlangt eintal yfir mér. Fegin varð ég þegar hann beindi athyglinni annað.

Lærdómur dagsins var einna helst að skammtapunktar eru það sama og nanókristallar, allt sem heiti nanó sé ígildi peninga inn á bankareikninginn og að orðið skammtapunktur (quantum dot) sé ekki lengur í tísku. Og takist einhverjum að föndra leisi úr kísli þurfi hann aldrei að vinna aftur.

Helgin var mjög róleg, horfði á dvd diska frá bókasafninu og tók til. Sunnudagurinn var eins og sunnudagar eiga að vera. Sólskin, brownie úr bakaríinu og göngutúr á ströndinni.