Ég skal blogga pínupons. Stund milli stríða, japla á þýskum jólasmákökum sem þarlenskur sessunautur minn kom með í dag. Soldið eins og piparkökur, aðeins sætari og mildari. Þýski gaurinn er alveg fínn, eftir að hann er hættur að ergja sig yfir að ég sé með betri styrk en hann. Það var orðið soldið þreytandi. Hann er ekki bara nágranni minn á skrifstofunni, flutti í götuna við hliðina á minni fyrir um mánuði síðan. Þarsíðustu helgi hélt hann hið ágætasta innflutningspartý, þar sem allra þjóða kvikindi söfnuðust saman, átu hamborgara, drukku mojito sem franskmaðurinn bjó til með myntu úr garðinum sínum og sangríu, sem einn spánverjinn blandaði af snilld.
Hitti kanadíska stelpu sem hafði líka farið að heimsækja stærsta sitjandi útibúdda úr kopar í heiminum. Skiptumst á ævintýralegum sögum um hvernig við komumst þangað. Mjög skemmtileg stelpa. Hápunktur kvöldsins var að dansa magadans við Yellow Submarine í félagsskap spænsku og þýsku stelpunnar, sem ég fór svo með í magadans í síðustu viku.
Magadanstíminn niðri í bæ var einkar hressandi. Kennarinn, ljóshærð kona í gullpallíettubúning, skók mjaðmirnar svo að gullpeningar og perlur þeyttust á gólfið. Hún var mjög umhyggjusöm og var sífellt að benda mér á að gera einfaldar útgáfur af æfingunum svo ég mundi nú ekki ofreyna mig. Braut engin bein í þessum íþróttatíma og hlakka til að mæta aftur fljótlega.