þriðjudagur, júní 14, 2005

Hæglátur norskur sviti

Allt í lagi á Spot11 um helgina. Hreingerningarkonurnar voru einstaklega hressandi og trommarinn barasta sætur, með Lemmy-skegg, rauðan varalit, svart í kringum augun, hanakamb og í mjög stuttu pilsi. Aúúú!
Susanna and the Magical Orchestra fannst mér líka alveg frábærlega falleg tónlistarupplifun. Stelpa sem syngur róleg og einföld lög hrífandi röddu á meðan strákur geiflar sig af innlifun og svitnar hæglátlega yfir nokkrum hljóðgervlum sem gefa frá sér stílknappa raftónlist. Keypti diskinn þeirra af söngkonunni eftir tónleikana.
Missti af fullt af dóti daginn eftir, en sá fullt annað, sem var allt í lagi. Spleen United fannst mér enn gaman að, þeir spila tónlist svipaða Depenche Mode á áttunda áratugnum. Heyrði fyrst í þeim í fyrrasumar á annarri tónlistarhátíð hér í bæ. Forvitin að heyra diskinn þegar hann kemur út. Efterklang spiluðu líka fallega tónleika og áttu mörg falleg hljóðfæri sem ég hreifst mjög af. Flúrað trompet, silfurlita raffiðlu, silfurglimrandi gítar og skínandi fallegan magnara á miðju sviði. Þessu öllu fylgdu myndbrot á tjaldi og mátti þar meðal annars sjá brot úr Metropolis og Potempkin (sem gerði líkindin við Múm enn meiri). Efterklang minna nefnilega ansi mikið á Múm. Það má samt hætta að láta það fara í taugarnar á sér eftir fallega tónleika sem þessa. Hvað meira, tja... Slysaðist fremst á Eyvarartónleika. Kvaldist undir raddfimleikum færeyskum. Eins og maður segir: Þungur hnífur. Kannski hefði nekt getað bjargað þessum ósköpum. Trine og félagar spiluðu svo beint á eftir henni á Aros. Tókst þeim ágætlega til.

Gekk alltílæ á fundinum í dag. Einhver misskilningur hafði gengið á víxl um ætlun og efndir. Hann er nú úr sögunni. Gott að hreinsa andrúmsloftið.

Dísa hringdi eftir hádegi og spurði hvort ég vildi vera sjálfboðaliði í heilaskönnun fyrir hugleiðsluverkefni. Sló til og fékk fjórar sneiðmyndir af höfðinu mínu á filmu fyrir ómakið. Ekki amalegt það!

Engin ummæli: