mánudagur, desember 04, 2006

Allt gott að frétta

Ég held áfram að hafa það einstaklega gott hérna í Árósum...

Fór í frábært afmælispartý hjá Evu og dansaði við góða tónlist.

Daginn eftir var matur og trivial hjá klifurkonunni, þar sem kjörorðið var "muna að hugsa", enda vildi það gleymast í þynnkunni.

Fékk loksins tölvupóst frá einum prófessornum í Englandi. "Very interesting" stóð í honum. Núna þarf ég að athuga með styrki og fleira.

Julefrokost íslenskra læknanema í Árósum var á föstudaginn. Mikill matur, mikið af bjór og mikið gaman. Komst að því að ég er mikið betri í Sing Star þegar ég er með bullandi hálsbólgu. Þar sem ég var hress á föstudaginn var sönghæfnin í meðallagi, en ekki var það nú leiðinlegt. Var föst í asnalega dansgírnum. Fékk þann súrasta pakka sem ég hef nokkru sinni fengið. Brokkólí. Það er greinilegt að sumir hafa meira gaman af að hrekkja aðra en gleðja. Skildi brokkólíið eftir í eldhúsi gestgjafans.

Var boðin í glögg til fimleikakonunnar á laugardaginn. Ákvað að mæta með eplaskífur og keypti mér pönnu til að baka þær. Það verður ágætis minjagripur frá Danmörku. Eplaskífurnar heppnuðust líka ágætlega, þótt ég segi sjálf frá. Þetta var alveg þvílíkt hyggeligt kvöld.