laugardagur, maí 28, 2005

Vikuskýrslan

Dóri bró og Íris eignuðust lítinn strák á miðvikudagskvöldið. Ég er því orðin alveg tvöföld föðursystir, auk þess að vera einföld móðursystir.

Það kvöld neyddist ég einmitt til að slá grasið í garðinum. Fór í súpermannbolinn og hamaðist í fjörtíu mínútur. Helvítis gróður. Hafði verið með hálsbólgu og ekki varð ég hressari af grasslættinum. Var því veik heima á fimmtudaginn. Hápunktur dagsins var þegar ég horfði á Baywatch: Hawaiian Wedding á þýsku sjónvarstöðinni RTL. Auðvitað var þetta döbbað á þýsku og var það einkar viðeigandi, fyrir utan að karlmannleg raust David Hasselhoff fékk ekki að hljóma. Myndin er frá 2003, nokkrum árum eftir að þættirnir hættu og Hobie var orðinn alveg fullorðinn, þótt enn væri hann stuttur í annan endann. Vitanlega endaði þetta með æsispennandi björgunarafrekum í fjöruborðinu.

Fór í vinnuna á föstudaginn. Hlustaði á stórskemmtilegan fyrirlestur um serótónín og dópamín í sjúklingum með Alzheimers, Parkinsons, þunglyndi og geðklofa. Át yfir mig af trufflum og sat eftir það á bjórfundi og ræddi við fyrirlesarann og fleiri. Náði að lesa smá áður en ég fór í bíó á síðustu Star Wars myndina. Mér fannst flott hvernig Obi Wan var orðinn eldri en í hinum myndunum, en annars var ýmislegt sem angraði mig við myndina, þótt hún væri spennandi og hreint ekki afleit.

Í dag var planið að læra fyrir próf, en ég er mest búin að vera slöpp og tuskuleg. Hóstandi og snýtandi mér endalaust. Djöfull er ég leið á kvefpestum.

Engin ummæli: