föstudagur, desember 23, 2005

Engill í bókabúð

Sit hér á Te og Kaffi. Reyklaust, þráðlaust og án mjólkur.
Búið að vera mjög gott að koma til Íslands. Ferðalagið gekk vel og þótt ég hafi ekkert sofið um nóttina. Var komin heim af skrifstofunni klukkan tvö um nótt og átti að leggja af stað fjórum tímum síðar. Tókst að pakka dótinu mínu og dótinu inni í stofunni, fara í sturtu og ná lest. Þegar ég var að skipta um lest í Kaupmannahöfn stoppaði ég til að finna vettlingana mína og sé þar fyrrum bekkjarfélaga minn, danskan, koma gangandi. Hann var ég ekki búin að sjá síðan í janúar og rekst svo á hann á brautarpalli í Kaupmannahöfn. Við spjölluðum örstutt, hann að flýta sér í atvinnuviðtal og ég á leið í lest út á flugvöll. Fann að ég var ekkert skotin í honum lengur og það var nú gott.

Pabbi kom að ná í mig út á flugvöll og við keyrðum heim til Eysó. Þar drukkum við kaffi og brátt fylltist allt af fólki. Vinkona Eysó kom með börnin sín og Dóribró með alla fjölskylduna. Sá litla frænda minn, hann Hrafnkel, í fyrsta skipti. Gaman að vera með fjölskyldunni.

Var aðeins heima að læra í gærdag. Leist illa á að fara í strætó niður í bæ og var svo heppin að fá lánaðan bíl þegar Eysó kom heim úr vinnunni. Á bláa öskubakkanum þeyttist ég í búðir, kíkti á mömmu og Aðalstein á skrifstofunni og dreif mig svo aftur heim til tröllanna. Þar var feikna matarboð í gangi, Þráinn listakokkur hafði töfrað fram kalkún með alls konar gúmmulaði. Mmmmmmmmmmmmmm............

Hentist niður í bæ á ný, alltaf gaman að keyra, gott rokk í útvarpinu á 97.7. Hitti engil í bókabúð og varð biskupsfrú minna fátæk. Jahérna hér. Yndislegt fólk. Hitti meira af því á labbi niður í bæ. Gleður mitt litla hjarta.

Engin ummæli: