
Afmælið hjá Trine á föstudaginn var afskaplega skemmtilegt. Náði að mæta fyrst og er það dæmi um nýfengna stundvísi mína. Komst í nokkuð stuð þrátt fyrir kvefið sem hrjáði mig. Var búin að ákveða að drekka ekki neitt, og gekk það eftir. Spjallaði meðal annars við kærustu eins vinar Trine, sem er sálfræðingur og vinnur við að leysa vandamál með einelti og lélegt andrúmsloft á vinnustöðum. Það var afskaplega spennandi. Svo var gaman að hitta fólk sem ég hafði ekki séð síðan í sumar og tala meira en ég hef gert í langan tíma.
Laugardagur fór í að kaupa ýmislegt smáræði sem mig vantaði; dót, stóra bolla, te, gráar ullarbuxur og skóreimar.
Þegar ég var að fara út úr fatabúðinni þar sem ég keypti buxurnar pípaði þjófavarnarkerfið. Ég sneri við, talaði við afgreiðslukonuna, sem þuklaði eftir þjófavörn á buxunum og sagði mér að reyna á ný. Aftur pípaði viðvörunarkerfið og ég rétti henni pokann með dótinu og buxunum, en ekki fannst nein þjófavörn. Í þriðja skiptið reyndi ég að komast píplaust í gegnum gættina, sagði "en, to, tre" og gekk varlega út. Í þetta skipti kom ekkert píp og ég kvaddi afgreiðslukonuna, sem baðst vandræðaleg afsökunar á þessu.
Var búin að mæla mér mót við Dísu í bíói um kvöldið. Fórum að sjá Walk the Line. Johnny Cash og June Carter i brennandi eldhring. Mjög gott allt saman. Eftir það borðuðum við grískan mat á Chez Tony og ræddum ýmslegt. Einkar góð kvöldstund.
Þegar ég var alveg að sofna í stofusófanum sá ég að Madonna var á TV2, skipti í flýti um rás. Þá var heimildarmyndin "I´m going to tell you a secret" nýbyrjuð. Ég varð auðvitað að horfa á hana þótt þreytt væri. Ég hef ekki verið með svona mikið Madonnu-æði síðan ég var tíu ára og hún nýbúin að gefa út Like a Virgin. Mér finnst lögin sem ég hef heyrt af nýju plötunni alveg frábær og tónlistarmyndböndin við þau hreinlega ávanabindandi! Er einmitt búin að hlusta slatta á lögin í dag á madonna.com, en komin með nóg í bili. Tom Waits kominn í eyrun í staðinn.
Heima er mauraplága í eldhúsinu. Þeir komu snemma þetta árið, risastór kvikindi. Setti eiturdósir þar inn og lokaði herberginu. Andskotans pöddur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli