Helgin var góð: Grillpylsurnar brögðuðust vel með franska langbrauðinu (baguette) úti í garði á föstudagskvöldið. Sandra Sif kom svo og gisti, ég fór og mætti henni við strætóstoppið upp úr miðnætti og svo kjöftuðum við fram á nótt. Daginn eftir fórum við í bæinn og kíktum á barnaföt í Magasin, sátum við ána og borðuðum ís og röltum svo að Clements brú við Strikið og fengum okkur kaffi. Fólkið sem gekk yfir brúna var meira fjölskyldufólk, en það sem gekk yfir brúna við Magasin. Þar var ungt fólk í tískuklæðnaði ýmiss konar mest áberandi.
Í gær dreif ég mig í viðtal í Odense. Vaknaði klukkan fimm um morguninn og var komin vel tímanlega í lestina klukkan sjö. Hef bara stoppað tvisvar áður í Odense og hef þá greinilega séð smekklegri hluta bæjarins. Strætóinn frá lestarstöðinni og upp á sjúkrahús keyrði hins vegar margar þröngar götur með lágum, niðurníddum húsum. Ekki leist mér vel á þá hlið bæjarins. Hins vegar var kynningin á náminu áhugaverð og prófið í almennri þekkingu frekar létt. Það liðu nokkrir klukkutímar þangað til ég átti að mæta í viðtal, svo ég hafði tíma til að borða, skrifa niður punkta og stressa mig svolítið. Ekkert allt of mikið samt. Eftir hádegi mætti ég til "hyggetanten", sem hópnum mínum hafði verið úthlutað. Við spjölluðum við hana og hvort annað í rólegheitunum. Einn og hálfur tími leið þangað til ég fór í viðtalið, sem gekk bara nokkuð vel fannst mér. Núna er ég hins vegar í vafa. Fæ svar eftir þrjár vikur.
Verði það jákvætt lendi ég í svolítilli klemmu, þar sem mér skilst að undanþága til að taka inn fólk sem er búið með kandídatsgráðu sé ekki veitt. Nú er ansi stutt þangað til ég klára og ég get ekki bara hætt og skráð mig úr náminu! Ljóta bullið. Ég veit alla vega að ég kemst pottþétt ekki inn í læknisfræði í Árósum, tékkaði á því í dag. Þannig að það er líklegt að ég hafi ekki mikið að gera í Danmörku þegar ég verð búin. Nema borga það sem ég skulda bankanum, ha, ha. Voðalega gaman.