mánudagur, maí 08, 2006

Prakkarastrik dagsins

Þegar ég kom heim síðasta föstudag beið mín bréf frá læknadeild Syddansk Universitet í Odense, sem bauð mér í viðtal þriðjudaginn 16. maí. Ætla ég að mæta í það, alltaf góð reynsla að fara í viðtöl og þótt ég hafi sett Odense í síðasta sæti af umsóknunum í læknisfræði. Ég get heldur ekki gert ráð fyrir að hinir skólarnir hleypi mér inn og dissað Odense alveg. Þá lítur út fyrir að ég þurfi að hefja bréfaskriftir við vísindaráðuneyti Dana, þ.e. ef ég klára þetta meistaranám, sem ég geri nema eitthvert stórslys hendi. Maður má nefnilega ekki byrja í nýju námi hér í DK ef maður er búinn með annað.

Hér skín sólin og við Krissa settumst út í hádeginu og fengum okkur samloku. Það er aldeilis huggulegt að láta sólina baka sig aðeins og ég held ég sé barasta að venjast sólinni ansi vel. Frídeginum síðasta laugardag eyddi ég einmitt að stórum hluta úti í sólinni. Sló gras, hengdi upp þvott, settist út í garð með blað og klappaði akfeitum fresskettinum úr næsta húsi. Einstaklega notalegt. Viðraði hjólhestinn á ókunnum stígum á milli húsa og inni í skógi. Í skóginum lenti ég í smá óhappi þegar bönd af tösku sem ég var með í körfunni framan á hjólinu festust í framhjólinu. Munaði litlu að ég hefði farið í kollhnís á hjólhestinum. Tókst að stöðva mig á stýrinu og er nú með hringlaga marblett eftir hjólabjölluna á maganum. Og marið pudendum eftir stýrið. Ekki gott, en gæti verið verra. Hélt áfram í hjólatúrnum og fór heim í hamborgara og sjónvarpsgláp. American History X á svt2.

Prakkarastrik dagsins var að sækja um vinnu í Kaupmannahöfn. Var að vísu soldið sein með umsóknina, en vona að það komi ekki að sök. Jæja, best að halda áfram í fjörinu.

Engin ummæli: