föstudagur, ágúst 25, 2006

Bæjarhjól bjargar botni

Komin á kaffihúsið mitt, eftir alltílæ fyrirlestur. Lenti í smá lestarveseni, DSB ekki að standa sig og tíu mínútna ferðalagið niður í bæ varð að 25 mínútum og endaði óvænt þrem stoppum frá aðalbrautarstöðinni. Við vorum beðin að fara út úr lestinni og sagt að það kæmu leigubílar til að skutla okkur á brautarstöðina. Ekki leist mér á það, því eftir allar þessar seinkanir var bara kortér þangað til ég átti að halda fyrirlestur á verkfræðiháskólanum. Ekki var víst hvenær leigubíllinn mundi koma og ég tvísteig nokkur andartök þangað til ég kom auga á bæjarhjólin. Þessa frábæra uppfinning finnst á götum Árósa á sumrin og kostar ekki neitt. Bara setja 20 kall í og svo fær maður hann aftur þegar hjólinu er skilað. Svona hjólhest skellti ég mér á og kom tímanlega, reyndar of snemma, því prógramminu hafði seinkað.

Tveir gaurar voru á undan mér með fyrirlestra, einn var að föndra munstur á yfirborð á gerviliði með rááándýrum leysi (5 millur danskar) og var pælingin sú að þá ætti títaníumoxíðið í gerviliðnum mögulega að samlagast líkamanum betur. Hinn var að byggja tæki til að rannsaka hvers vegna gíraffar fái ekki æðaskemmdir eins og mannskepnur. Ég veit ekki hvað það er en alltaf þegar ég heyri orðin blóðþrýstingur og lagstreymi missi ég algjörlega áhugann og fer að leiðast ótæpilega. Ég fór því út og gúffaði í mig roastbeef sammara. Gaurinn var ennþá að tala þegar ég kom til baka. Svo var komið að mér að láta fólki leiðast, he, he. Ég ætlaði þó að halda mig innan tímamarka, öfugt við félaga mína. Það tókst vel, talaði í tæpt kortér. Lofsvert framtak hjá annars árs nemum að halda þennan kynningardag.