Ekki hægt að segja annað en að það sé nóg að gera. Náði mér líka í slæma kvefpest. Var slöpp á laugardaginn og veik á sunnudaginn. Druslaði mér samt á skrifstofuna á mánudeginum og henti einu stykki umsókn um nám í læknisfræði í póstinn. Enn er til vandræða hvað ég er óskipulögð, ætlaði að vera búin með þessa umsókn fyrir löngu, en svo hefur það einhvern veginn ekki komist að, nóg annað að gera. Æjá. Verkefnið mjakast áfram og mig vantar lóðbolta, viðnám, hitamæli sem nær upp í 100 gráður og fleira. Eyddi morgninum í að læra á skannann (3 T MR skanna) og ég verð væntanlega í kjallaranum um páskana að sjóða gel, lóða víra, tengja dótið og skanna svo allt saman. Veiii!
Í gær át ég Mekong-mat með Krissu, Dísu og tveim útlenskum skiptinemum á kollegíi hér á háskólalóðinni. Tælenski maturinn var einkar bragðgóður, en ég var frekar ókræsilegur borðfélagi þar sem horið rann í stríðum straumum og ég var alltaf að snýta mér. Var líka viðbjóðslega slöpp. Fór að sofa með því hugarfari að nú ætlaði ég að sofa vel og vakna mikið hressari um morguninn. Það virkaði ágætlega þótt ekki sé ég fullhress.
Stína var eitthvað að kvarta yfir að enginn hafi bloggað um kvennadaginn í síðustu viku. Vissi ekki að það væri sá dagur fyrr en ég kom heim og kveikti á sjónvarpinu. Þá voru nokkrir klukkutímar helgaði deginum og ég lá upp í sófa og fylgdist með umræðum og horfði á heimildarmynd um snípinn. Já, snípurinn er skemmtilegt líffæri...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli