fimmtudagur, október 12, 2006

Pókerkínverjinn

Sem ég var sest í rólegasta hornið á bókasafninu, búin að taka upp tölvuna og heyranartólin, kemur til mín kínverskur strákur. Hann spyr hvort ég ætli að hlusta á tónlist, hann hafi keypt sér mp3 spilara fyrir nokkrum dögum og vanti tónlist. Ég reyndi fyrst að segja nei, ekki þýddi það neitt og ég endaði með að sjá aumur á greyinu og fylla 1GB spilarann hans. Það tók sem betur fer ekki langa stund. Dældi í hann rúmlega hálfu gígabæti af Belle and Sebastian og þar að auki Mugison, Múm og Madonnu. En það var ekki nóg, því kínverjinn vildi líka tala soldið mikið. Það var svo sem ágætt, en hann skildi alls ekki að ég hafði annað að gera og kom aftur og aftur til að trufla mig. Ég fékk meðal annars að vita að hann væri í meistarnámi í Handelshøjskolen, ynni við að dreifa blöðum og að póker væri hans aðaláhugamál. Hins vegar væri hann ekkert voðalega góður og hefði tapað mörgum peningum. En núna væri hann að vinna í málinu.

Ég endaði með að afsaka mig og sagðist þurfa að vera komin annað eftir kortér. Færði mig laumulega á aðra hæð, vona að ég sjái þennan ágenga strák ekki aftur!