mánudagur, október 09, 2006

Sunnudagar og aðrir dagar

Síðustu tveir sunnudagar hafa verið alveg frábærir. Fyrir rúmlega viku fór ég í langan göngutúr um smábátahöfnina á meðan ég hlustaði á P1 í góðu veðri.

Gærdagurinn fór í langan labbitúr á ströndinni í nýju gúmmístígvélunum mínum (hin voru orðin götótt). Rölti líka á ströndinni fyrir kvöldmat á föstudaginn. Þá voru fáir á ferli, einn kall með hund og eirbrúnn maður á stuttbuxum, skokkandi. Þegar ég var komin langt upp eftir ströndinni gekk ég enn fram hjá manninum eirbrúna, sem var í þann mund að afklæðast og henti sér svo til sunds. Þegar ég leit við skömmu síðar var hann kominn rúmlega hundrað metra út í sjó. Hraustur maður!

Síðasta vika fór að stórum hluta í námskeið í atvinnuleit og í dag var síðasti dagurinn. Mjög gott námskeið og hvetjandi. Mikið af hópvinnu, breiður hópur af fólki og allir með mikinn áhuga á því sem þeir voru að gera.

Er búin að taka aftur upp það áhugamál mitt að kíkja í listagallerí, en það hef ég stundað lítið eftir að ég flutti til Danmerkur. Skrapp að skoða Árósarútibú Mogadishni á laugardaginn, en þar var síðasti dagur sýningar með Andreas Schulenburg. Hann gerir mjög skemmtileg verk úr m.a.filti, leir og vatnslitum. Bleik ský með fílum, vélbyssur og fjöll. Skemmtilegur listamaður og frekar stórt gallerí, miðað við Árósa. Gaman.