Vinnudjammið á föstudaginn fór friðsamlega fram. Við Birgitte og Sanne mættum langfyrstar og biðum fyrir utan samkomuhúsið, sem var í líki risavaxins garðskála á tveimur hæðum, umkringdur vatni með öndum og sefi. Ekki leið á löngu þangað til skemmtinefndin mætti og við tók að raða borðum, stólum, mat og drykkjarföngum. Ég var fengin til að bera bjórkassa með tveim öðrum óinnfæddum. Spaugaðist með að þeir innfæddu mundu eflaust eiga léttar með að leysa verkefnið, enda búnir að drösla bjórkössum langar vegalengdir frá unglingsaldri. Sýndi það sig að grönn dönsk kona lyfti kassanum með einni hendi og bar inn án þess að blása úr nös.
Allir höfðu átt að koma með mat og voru margir girnilegir réttir á boðstólum. Sérstaklega súkkulaðikökur tvær, sem ég varð svo hrifin af að ég fékk mér þrisvar. Og eina sneið með heim líka.
Það var svo gaman að tala við borðfélagana að ég gleymdi mér alveg og ákvað að sleppa tónleikum Bræddu banana niðri í bæ. Við Rune fengum salsakennslu hjá sérlegum salsameistara skrifstofunnar og svo varð ég bara þreytt og fékk far heim rétt um miðnætti.
Ég hafði lofað mér í tiltektarhópinn daginn eftir og mætti þangað eldress í góða veðrinu. Smá tiltekt og hygge við vatnið.
Var svo þreytt um kvöldið að ég sofnaði rétt eftir að Konur á barmi taugaáfalls byrjaði í sjónvarpinu um níu leytið. Hana er ég að vísu búin að sjá svo oft að það skipti engu máli. Sænska "Tvoan" hefur sýnt slatta af Almódóvar myndum undan farið. Ég sá eina gamla um daginn um húsmóður sem sniffar lím og á tvo syni. Annar selur eiturlyf og hinn sefur hjá miklu eldri mönnum. Best að snúa sér aftur að gagnamöndlinu. Bæjó!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli