sunnudagur, október 30, 2005

Vetrartími

Ákvað að skella mér í verslunarferð í dag, þar sem aldrei þessu vant var opið á sunnudegi í Bruuns galleri (stór verslanamiðstöð hér í Árósum). Ætlunin var að kaupa tvær afmælisgjafir og svipast um eftir úlpu. Hélt að klukkan væri um tólf þegar ég stóð og beið eftir strætó, en þegar inni í honum stóð svo ellefu á strætóklukkunni. Þá var kominn vetrartími og ég aldeilis búin að græða klukkutíma í dag. Var því komin aðeins áður en búðirnar opnuðu og mér til mikillar furðu var allt fullt af fólki sem beið fyrir utan þær. Væntanlega til að kaupa eitthvað ákveðið á tilboði. Ég mjakaðist inn í íþróttaverslun og keypti mér úlpu á 500 kall danskar. Kemur hún í staðinn fyrir "rónaúlpuna" sem ég keypti hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík fyrir rúmum sjö árum, á 500 krónur íslenskar. Eitthvað var verslunargleðin í loftinu smitandi, svo ég keypti líka tvo síðermaboli í Vero Moda, bráðvantaði einmitt svoleiðis. Keypti afmælisgjafirnar tvær og dreif mig út, sveitt af verslunarelju.

Þetta var ágætis upphitun fyrir líkamsræktina, sem var næst á dagskrá. Aldeilis hefur þessi sunnudagur nýst vel og nú ætla ég að halda áfram hér á skrifstofunni. Klukkan átta á ég svo stefnumót við sjónvarpið, The 4400.

Engin ummæli: