föstudagur, apríl 29, 2005

Orð dagsins

Orð dagsins er "apostrophe". Það þýðir úrfellingarkomma(´). Borðið mitt var alveg í kasti yfir þessu orði seinni hluta matlabnámskeiðsins í morgun, skiptumst á að láta tölvurnar segja það og mæla það sjálf af munni fram. Við borðið sat ég ásamt einum brasilíumanni og tveim dönum, þar af öðrum af írönskum uppruna. Vorum að grennslast fyrir um nöfnin á alls konar svigum og táknum sem við notuðum í forrituninnu. Þá kom úrfellingarkomman og sló í gegn, næst á eftir "væltet tuborg" ,}, sem heitir það víst vegna þess að Tuborg bílarnir hér í gamla daga voru með boga sem líktust slaufusvigum á. Hér í vinnunni er búið að vera alveg sprengi-matlabkúrs í gangi síðustu þrjá daga. Í dag var alveg ofur-sprengi og steiktir heilarnir skildu eftir sviðalykt á bókasafninu.

Þessi vika er hins vegar búin að vera ágæt. Fékk æfingalíkanið til að virka á mánudaginn og gerði mælingar á því sem lofa góðu. Matlabkúrsinn byrjaði á miðvikudaginn og þar var þeyst í gegnum myndvinnslu, forritun og að búa til notendaviðmót. Mjög sniðugt. Missti af kúrsinum á fimmtudaginn, því þá var ég niðri í kjallara að skanna. Stuð að dótið virkar og nú er gagnamöndl og meiri mælingar fram undan.

Skrapp í uppáhalds unglingabúðina mína í vikunni að kaupa afmælisgjöf. Þar var einnig stödd ein af stúlkunum úr "Scandinavias Next Top Model". Þegar ég stóð við kassann að borga heyrði ég á tal hennar við hina afgreiðslustúlkuna. Já, hana vantaði eitthvað hermanna- til að vera í fyrir partý á laugardaginn. "Ertu að fara í partýið á Slik?" spyr afgreiðslustúlkan "Ég fer kannski líka, kannski sjáumst við þar." Þá vitið þið það, kæru lesendur: Inn-wannebe partý á Slik hér í Árósum á laugardagskvöld, hermannaþema. Allir að svindla sér!

Helgin framundan, vinna og leika sér. Apostrophe!

Engin ummæli: