Helgin var einkar róleg. Eftir göngutúr í bænum í frábæru veðri á föstudagskvöldi fór ég í vinnuna og var þar þangað til rúmlega ellefu. Á laugardaginn fór ég í bæinn að ná í filmur og kaupa þvottasnúru, svo í vinnuna. Upp úr átta rölti ég til Trine að spila landnemaspilið Catan, sem ég hafði aldrei spilað áður og var ekki voða góð í. Rölti með Krissu niður í bæ og tók þaðan næturstrætó heim. Það var ótrúlega lítið mál og mun ódýrara en leigubíll.
Annars er ég frekar smeyk að labba heim þarna úti í skógi. Göturnar eru svo myrkar að maður sér oft ekki fæturna á sér, hvað þá hundaskítinn sem maður veit að er þarna einhvers staðar. Maurahelvítin eru ekki dauð ennþá, þótt eitraði maturinn hafi stráfellt þá í eldhúsinu. Í gær var hrúga af dauðum maurum í kringum matardósina í svefnherberginu og fjórir stórir maurar voru að dröslast með dauðu maurana. Skil ekki af hverju, en í morgun voru þeir búinir að fjarlægja þá alla! Ja hérna. Það orðið aldeilis spennandi að fylgjast með atferli skordýranna heima.
Brjálað að gera í verkefninu og næsta föstudag fer ég í helgarheimsókn til Íslands. Andrea systir að fermast, Lilja frænka sextug og Þuríður Erna tveggja ára.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli