Svo ég vitni nú í sjálfa mig aðfaranótt laugardags á ég bara afmæli í einn mánuð á ári og um að gera að njóta þess! Bauð því til afmælisveislu á föstudagskvöldið. Marie, Ole og Stine komu upp úr sjö. Krissa, Stefán og Andri, frændi Krissu, komu seinna eftir að hafa villst um hverfið og götuna mína í allavega hálftíma.
Af því að ég elska kjötbollur og þær elska mig, hafði ég ekta sænskar kjötbollur á boðstólum, heimatilbúið kartöflusalat, rúkólasalat með tómötum, kartöflueggjaköku með hráskinkubotni og chili-hvítlauksrækjur. Mér fannst þetta afskaplega notaleg afmælisveisla. Fékk ég fleiri góðar gjafir, blandara, vél til að gera barmmerki og geisladiskinn Sung Tongs með Animal Collective.
Íslensku gestirnir fóru á tónleika á Trøjborg og ég fór með hinum gestunum í næsta strætó. Marie og Ole þurftu að vakna snemma og leggja af stað í brúðkaupsferð til Grikklands og Stine var dauðþreytt eftir æfingabúðir í liðsstjórnun, sem hljómuðu eins og eitthvað úr Fear Factor. Ég slóst svo í hóp Krissu, frændans og Stefáns. Náði síðasta laginu með hljómsveitinni The Parkinglot Creamers, þar sem vinur Krissu úr tölfræðinni spilar. Seinna um kvöldið hittum við hljómsveitarmeðlimi á barnum. Það datt út úr mér að ég hefði bara heyrt þetta eina lag með þeim og það hefði alveg verið nóg. Æi. Smá vandræðaleg þögn fylgdi. En mér sýndust þeir ekkert taka sig of alvarlega, svo að þetta var allt í lagi.
Missti af næturstrætó, þannig að veskinu mínu blæddi einum hundraðkalli í leigubíl heim. Dýrt spaug.
Vaknaði um níu næsta morgun þegar heimilissímininn hringdi. Var það kona ein sem sagðist vera nágranni minn og spurði hvort ég hefði týnt kanínunni minni. Svaraði ég því neitandi, ég ætti engar kanínur. Þetta var þá bara skakkt númer.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli