Sólin hitaði mér um rasskinnarnar á meðan ég gekk niður í bæ í gærdag. Úti var frábært veður og þunnar buxur og stuttermabolur næstum of mikið af fötum. Frí í skólanum (sérfræðingarnir of uppteknir til að kenna) og ég eyddi deginum í stúss og meira stúss. Er að undirbúa flutninga og fleira. Ekki enn búin að finna leigjanda fyrir herbergið mitt.
Hjólaði niður í bæ um kvöldið og hitti Ole og Marie við innganginn að tónleikastaðnum. Bróðir Ole, hinn alræmdi Frederik, kom um sama leyti og við gengum inn. Þar sem ég vissi við hverju var að búast reyndi ég að leiða vandræðalegar viðreynslutilraunir Frederiks hjá mér, en stundum komst ég ekki hjá því að hlæja aðeins að greyinu. Marie vildi hins vegar endilega svipast um eftir gaur handa mér, en ég nenni aldrei svoleiðis þegar ég er úti að skemmta mér, þannig að hún gafst fljótlega upp á því. Hitti líka Trine og Johannes á tónleikunum, sem voru mjög fínir. Hempler er með alveg ótrúlega fallega rödd og jafnvel enn betri á tónleikum en á disknum. Hann var líka alveg einstaklega kurteis og svalur, sagði pent "Tak skal i ha" og "næst vil vi gerne fortsætte med..." á milli laga.
Eftir tónleikana ætlaði ég að hitta Bjørg og við mæltum okkur mót við ána, þar sem kuldaboli var aftur mættur og sænskir strákar sögðu "Fy fan" þegar þeir gengu framhjá okkur. Fórum á einn bar, en ég nennti ekki einu sinni að klára bjórinn minn og hjólaði beinustu leið í heim í rúmið mitt. Mikið gott að sofa. Vaknaði snemma í morgun, þvoði þvott og tókst að finna tvær afmælisgjafir í bænum. Fékk mér latte í ferðamáli á Strikinu og nú ætla ég heim að prumpa í herberginu mínu. Allir í stuði?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli