Afmælispartýið í gær var það skemmtilegasta sem ég hef nokkru sinni haldið! Takk, takk, frábæru gestir! Hafði ætlað að búa til alls konar smárétti, en þar sem ég ákvað að endurraða húsgögnunum í herberginu mínu og varð steikt í höfðinu af sólskini og hita á föstudaginn gekk það ekki alveg. Þegar fyrstu gestirnir komu var ég bara búin að setja ólívur í skál og ekki einu sinni búin að skipta um föt og næstu tvo klukkutímana hljóp ég um eins og hauslaus hæna, en einhvern veginn tókst mér að komast í partýgallan og græja mat, með smá hjálp. Kasper skar brauð og Marie raðaði chorizosneiðum af miklu listfengi. Ég græjaði meðal annars chilirækjur og ofnbakaða sveppi með ostrusósu. Chilirækjurnar vöktu nokkrar vinsældir, þær er mjög einfalt og fljótlegt að gera, bara þíða ræjkur, hella frekar ósætri chilisósu og smá sítrónusafa yfir og hræra. Það rættist sem sagt úr matnum, á tímabili stefndi í að ég yrði vondi gestgjafinn með kostinn magra (den onde værtinde med den ringe kost).
Smátt og smátt fylltist herbergið af fólki og hitastigið hækkaði. Sumir flúðu hitann inn í eldhús á meðan aðrir dönsuðu. Krissa og Kasper voru þar einna duglegust og þær systur Bjørg og Gunnvør komu sterkar inn, kunnu alla texta með Cure. Það varð mikið stuð, sungið og tjúttað. Enduðum nokkur á arkítektaskólanum, þar sem við dönsuðum meira við rassa-R&B og hipphopp. Fór þaðan um fjögur-leytið og er í dag þægilega helluð og alveg til nudd fyrir stífa vöðvana. Fékk margar frábærar afmælisgjafir, meðal annars nýjasta Morbid Angel diskinn frá Trine og Kasper (fyndið og skemmtilegt), flottar skálar frá Krissu og Dísu, Bóksalann frá Kabúl og matreiðslubók eftir Chili John Rasmussen nokkurn frá Söndru Sif og Bjarka.
Ekki búin að sofa mikið, tók slatta til eftir að ég kom heim, vaknaði klukkan níu og tók meira til. Fékk gæsahúð af að hlusta á Japanese Policeman með Kimono þegar ég var að stússast í þvottinum niðri í kjallara. Djöfulli gott lag og myndbandið líka. Gæsahúðin byrjar að koma þegar um það bil tvær og hálf mínúta er búin af laginu. Mæli með því að fólk nái sér í það á heimasíðu þeirra og hlusti á í góðum stereo hátölurum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli