Búin að vera alveg einstaklega heppin síðustu daga. Átti að mæta í röngtenmyndatöku tuttugu mínútur yfir eitt í gær hérna niðri í bæ og þá var auðvitað vonlaust að ég næði í tímann upp á Skejby klukkan tvö. Frétti að kennaranum mundi seinka og þegar ég loks mætti var hann ekki enn kominn þannig að ég náði að fá mér kaffi og súkkulaði, lesa blaðið og spjalla aðeins við bekkjarfélagana áður en kennarinn kom rúmlega kortéri seinna.
Í dag átti ég von á símtali klukkan hálfeitt og eitthvað dróst það þannig að ég hélt ég væri að koma hálftíma of seint núna eftir hádegi. Þegar ég kem að kennslustofunni er búið að hengja upp miða þar sem á stóð að kennslunni væri aflýst vegna anna kennarans. Endalaust heppni!
Það er annars að frétta að á röntgenmyndunum sást aðeins lítilvæg þykknum slímhimna, enda er ég búin að vera dugleg að nota steranefsprey, saltvatnssprey, ofnæmistöflur og nikótíntyggjó síðustu tvær vikur. Nær alveg laus við hausverkinn og er ánægð að ég ákvað sjálf að gera eitthvað í þessu.
Hringdi í Írisi mágkonu í gær til að óska henni til hamingju með afmælið. Þau hjónin voru kát og hress, Dóri að leggja af stað upp á Kárahnúka í dag og verður þar fram yfir helgi. Sagði honum að passa sig á Impreglio, að þeir sprengdu ekki göng í gengum hann.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli