laugardagur, október 09, 2004

Menningarnótt okkar sveitamanna

Búin að setja upp nettengingu heima og er að hlaða niður illu Windows forriti til að horfa á RÚV. Nenni ekki að leita að öðru forriti til þess í bili. Kannski næ ég að sjá Gísla Martein hneggja af gleði á tölvuskjánum eftir tuttugu mínútur.

Kaupmannahafnarbúar flykktust í gærkvöldi á menningarnótt, en hér á menningarnótt okkar sveitamanna voru meiri rólegheit. Við Dísa hittumst niður við ána upp úr átta. Kíktum í dómkirkjuna þar sem ljósker með stuttum setningum voru dreifð. Maður tók rauðlýsandi kerin upp og las hverja setningu. Kerin fóru vel í hendi og ég var svo heppin að eitt datt í sundur þegar ég var að skoða það. Ljósgjafinn reyndist vera rauð díóða og speglaþynna í lokinu dreifði ljósinu frekar. Setningin "Bókin mun alltaf vera til staðar sem leiðarvísir fyrir vélina" fannst mér athyglisverðust.

Eftir kaffistopp fórum við á Musikcaféen, þar sem hin frönsku Dat Politics héldu tónleika. Þau byrjuðu skemmtilega á rafrænu helíumstrumparappi, en undir lokin fannst mér þetta vera orðinn full mikill hávaði. Hittum Kasper, Filip og fleiri. Einhver blindfull stelpa var alltaf að kássast utan í Kasper og hálfdetta á hann, mjög fyndið. Hún var með hópi af fólki sem samanstóð af leikstjóralegum skeggapa, jakkafatakalli, útihátíðarfitubollu og snyrtilegri stúlkukind með gleraugu. Þau dönsuðu eins og brjálæðingar og sveifluðu af og til gerviskammbyssu og kuta.

Kvöldið endaði á Bryggeriet, thar sem vid hittum Söndru Sif, Bjarka og Össa. Søren og Tinna komu seinna. Skemmtilegur bar, thar sem their brugga sinn eigin bjór og bruggtækin eru hluti af innréttingunni.

Engin ummæli: