miðvikudagur, júní 23, 2004

Komin í frí!

Kaus grísinn minn í gær og varð við það of sein til að mæta í praktík þann daginn. Keypti mér svínakjöt og eldaði mér fyrsta alvöru matinn í margar vikur, sterksúrsætan. Var heima að taka til og horfa á landsleik Dana við Svía með öðru auganu. Sjónvarpið mitt er líka að deyja, hálfur skermurinn horfinn undir svarta sporöskju og fleiri truflanir.

Eftir leikinn fékk ég sms frá Söndru Sif, sem var á leiðinni niður í bæ með Bjarka og búlgörskum vini hans, sem þau höfðu verið í mat hjá. Hjólaði niður í bæ að hitta þau og við fengum okkur einn bjór við ána. Mikið af fólki í bænum, sumir með skrítna hatta og margir í dönskum fótboltatreyjum og í miklu stuði. Milt og gott veður spillti ekki fyrir og við sátum úti undir hitalampa.

Hélt ég hefði sofið yfir mig í morgun og hljóp út á mettíma. Grunsamlega lítið fólk á ferli og þá sá ég að klukkan var sjö en ekki átta! Fór í bakaríið og hengdi upp þvottinn minn, áður en ég tók strætó upp á Skejby. Þar átti ég sæmilegan dag, gott að þurfa ekki lengur að hugsa um próflestur. Þetta var síðasti dagurinn minn í praktík þangað til 16. ágúst og næst fæ ég að ráða meira á hvaða deildum ég lendi.

Kom við í bænum í leiðinni. Keypti sumarjakka og peysu á útsölu í BikBok, gjöf og fleira. Af því að ég er að fara í ferðalag í fyrramálið keypti ég svo hræódýra litla ferðatösku á hjólum í matvörubúðinni og trillaði öllu draslinu sem ég hafði keypt í henni heim. Á töskunni stendur Travel og mig langar til að setja Bitch fyrir neðan. Travel Bitch, er það ekki bara kúl?

Engin ummæli: