Komin út í skóla, afar kát eftir skemmtilegt gærkvöld. Fór og hitti Krissu á Mugison tónleikunum, eftir að hafa lært nóg til að friða samviskuna. Krissa var komin í rokna stuð og Mugison var rosalega fyndinn. Hann nauðgaði flestum lögunum sínum af Lonely Mountain, sum voru komin í hálfgerða teknó útgáfu. Hló svo mikið að það fór að leka úr augunum á mér. Á milli laga talaði hann til áheyrenda, sýndi þeim nýtt trix sem hann hafði lært "in Copenhagen where all the hippies are... Christiania, yeah" - að opna bjórflösku með beltissylgjunni sinni. Vakti það mikla lukku. Í tveim síðustu lögunum kom kærastan hans upp á svið og spilaði með á harmonikku og söng. Geðugasta stúlka. Mugison var hins vegar hálfdýrslegur. Skrýtnir og skemmtilegir tónleikar.
Fór ein á flakk, hlustaði á raftónlist í litlu heitu herbergi, þar sem allir voru mjög alvarlegir, enda mikið þunglyndi sem streymdi úr hátölurunum. Krissa hringdi, í pásu milli laga (samt var sussað á mig!), þau voru komin fyrir utan ARoS og þangað fór ég svo. Kasper, Krissa, Solveig, Mads og Trine voru í stuði við borð úti. Krissa og Kasper röppuðu af stakri snilld og svo fórum við á Jokeren og dönsuðum eins og vitleysingar alveg fremst. Eftir það var ég sveitt og kát. Vorum úti að tala við alls konar fólk eftir það og svo varð ég hrikalega þreytt og fór, heim, ákveðin í að vakna snemma og vera dugleg að læra. Og hér er ég! Best að fara að læra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli