miðvikudagur, maí 19, 2004

Góðir gestir

Kíkti niður í bæ í hádeginu í gær að hitta pabba og Guðrúnu. Við borðuðum hádegismat við ána og ég kíkti með þeim inn í dómkirkjuna áður en ég tók strætó aftur upp í skóla. Inni í kirkjunni var meðal annars flott orgel og hauskúpur! Á einum veggnum var málverk af hjónum sem sátu við borð með kerti og hauskúpu á milli sín og utan um þau voldugur rammi með útskornum englum. Við ganginn upp að altarinu var útskorin tannfá hauskúpa á tréramma utan um annað málverk. Hauskúpur, fílaða.

Eftir bókó fór ég heim og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera við svínakjötið sem ég átti. Von á pabba og Guðrúnu í kvöldmat. Fór í búðina og ráfaði þar um í tuttugu mínútur. Hafði eitthvað verið að pæla í að marinera það, til dæmis í engifer, eða krydda með indversku kryddi og sjóða hrísgrjón með. Langaði samt ekkert í hrísgrón. Í búðinni sá ég ferskt tagliatelle með tómat og hvítlauk og þá datt mér í hug að gera kjötsósu úr svíninu með því. Þetta er sósan sem ég bullaði:

Rósmarínsvínasósa:

1-2 matskeiðar jómfrúrólívuolía
400 g svínagúllas
þurrkað rósmarín eða ferskt, ekki of mikið
u.þ.b. 75 g beikon (um 5 sneiðar)
tvö stór hvítlauksrif, söxuð
ferskir sveppir, í bitum
300 g vel þroskaðir tómatar
smá vatn (kannski 1 dl)

Svínakjötið steikt á pönnu í ólífuolíunni, rósmarín sett á pönnuna þegar kjötið er steikt og hrært. Hvítlaukur og beikonsniðar steikt með, á það vægum hita að hvítlaukurinn brúinst ekki. Sveppirnir settir út í, tómatarnir skornir í báta og bátarnir í tvennt og settir á pönnuna. Beikonið tekið af og saxað. Látið malla aðeins og svo er vatni(eða soði af pastanu) bætt í sósuna og hrært. Lok sett á pönnuna og látið malla þangað til það er tilbúið eftir u.þ.b 20 mínútur(?). Tók ekki tímann. Beikoninu bætt aftur út í að síðustu.

Með þessu hafði ég tagliatelle og snöggsoðið brokkólí. Maturinn varð ansi góður, þótt ég segi sjálf frá. Eflaust verður rétturinn enn betri ef maður notar meyrari vöðva, sem maður gæti saxað í minni stykki til að spara eldunartíma og síðan blandað saman við pastað.

Gestirnir voru líka góðir. Pabbi skrúfaði hurðirnar á fataskápinn minn og þau hjálpuðu til við uppvask og fleira tilfallandi.

Úff, búin að skrifa allt of mikið, best að fara að læra!

Engin ummæli: