Brunaði með lestinni til Kaupmannahafnar klukkan níu síðasta sunnudagsmorgun að hitta pabba og Guðrúnu, sem eru í viku heimsókn hér í Danmörku. Þau sóttu mig á lestarstöðina og svo plataði ég þau til að keyra á hið ágæta Amokka kaffihús á Austurbrú. Kaupmannahafnarmaraþonið var í gangi og við virtumst sitja við hluta af skemmtiskokkleiðinni. Allavega hlupu nokkrir í skemmtilegum búningum fram hjá og kaffihúsagestir klöppuðu.
Fórum í bíltúr til Lyngby og þaðan til Dragør, fallegs gamaldags bæjar á Amager, þar sem við gistum. Borðuðum kvöldmat á afskaplega ágætu veitingahúsi.
Morguninn eftir keyrðum við til Humlebæk að skoða Louisiana safnið. Þangað var mig búið að dreyma um að koma í áraraðir, allt frá því að ég sá Louisiana revy fyrst á bókasafni Kópavogs. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum með heimsóknina. Fékk þar að auki feikna samloku sem slagaði hátt í múffulötturnar í New Orleans, með rósmarínskinku, hvítlauks-aioli og grænu salati.
Pabba langaði til að skoða Eyrarsundsbrúna, þannig að við keyrðum hana, kíktum aðeins inn í Malmö og brunuðum svo áfram til Árósa. Stoppuðum í Odense til að borða kvöldmat, það virðist vera ágætis bær. Vorum komin hingað um hálfellefu, þau tékkuðu sig inn á hótel og skutluðu mér svo heim. Ég náði restinni af "Top Model", tæmdi uppþvottavélina og losaði stíflu sem eyrnapinnar eins meðleigjanda míns höfðu myndað í niðurfallinu í sturtubotninum.
Það var annars gaman að fara í bíltúr.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli