Laugardagsmorgunn var tekinn snemma, hjólaði á ARoS að hitta pabba og Guðrúnu. ARoS er splúnkunýtt alþjóðlegt listasafn hér í bæ. Innviðir þess minna ögn á Guggenheim safnið í New York, þá einna helst umgjörð stiganna. Af þakinu er frábært útsýni yfir bæinn. Ekki var búið að setja upp sýningar í öllum rýmum, en annars var þetta ágætt, barasta. Kjallarinn skemmtilegastur, þar voru vídeóverk og innsetningar.
Kvennasafnið var næst á dagskrá. Borðuðum hádegismat á huggulega kaffihúsinu þar og skoðuðum sýningarnar, sem voru þrjár. Konur í gegnum tímann, menntaskólastúlkur í hundrað ár og kvennaherbergi Yoko Ono. Skemmtilegast fannst mér að sjá viðtal við Lene V. Hau, konuna sem stöðvaði ljósið í Bose-Einstein þéttu (e. condensate), en hún lærði einmitt eðlisfræði hér við háskólann í Árósum og er nú prófessor í Harvard.
Eftir safnferðina skutluðu þau mér heim og við kvöddumst. Leitt að sjá á bak svo góðum gestum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli