sunnudagur, maí 09, 2004

Helgin sem leið

Jamm, sunnudagur og hræðilega mikill hiti úti. 20 stig. Held mig bara inni, búin að horfa á sjónvarpið í nær allan dag. Smeyk við hitann og sólskinið.

Fór á tónleika með Ikschel Taschel á föstudagskvöldið. Þetta er danskt tilraunakennt rapp, á tungumáli sem þeir bjuggu til sjálfir. Mikið stuð og krúttaraleg stemmning, gaman að heyra fólkið syngja með hástöfum og í lokin buðu þeir öllum sem vildu að koma upp á svið.

Hitti Kasper, sem sagði að Arab Strap tónleikarnir hefðu verið svo frábærir að hann hefði fengið "lyst til að sperme i bukserne". Ég varð soldið leið að hafa ekki farið, er að reyna að spara, ekki gaman.

Hélt heim frekar snemma og steinsofnaði. Var ógurlega þreytt á laugardeginum og gerði næstum því ekki neitt. Kíkti að vísu í bæinn eftir gjöf, keypti tvær ömmulegar nærbuxur og í matinn.

Skrapp í hressandi barferð um kvöldið, fór heim upp úr miðnætti. Heima var gaurinn í herberginu við hliðina í miklu stuði, vinur hans í heimsókn og þá dugar nú ekkert minna en að hafa tvær mismunandi gerðir tónlistar í gangi samtímis. Frekar undarlegt, kannski er dj Glenn -nýlistamaður, að brjótast fram úr ilmvatnshommanum? Þeir voru samt svo indælir að slökkva á öðru garginu og ég gat sofnað.

Hjólhesturinn minn, hann Beini, gafst upp á leiðinni heim í gær. Gírarnir búnir að vera skrítnir síðustu daga. Held ég hafi endanlega rústað þeim í hjólatúrnum langa sem ég fór í eftir kvöldmat á föstudaginn. Veðrið var svo fallegt og malbikið svo slétt þegar ég var að koma að blokkinni minni að ég hélt bara áfram að hjóla næsta klukkutímann. Tók fullt af myndum, bæði á símann og filmu. Hendi myndunum úr símanum á netið við tækifæri.